Fræðsla
Dómstólar hafa það hlutverk að skera úr um ágreining milli aðila og hvort einstaklingar, lögaðilar eða opinberir aðilar hafi brotið gegn lögum. Hér á landi eru starfandi tvö dómstig, þ.e. héraðsdómur og Hæstiréttur. Öll mál koma fyrst til úrlausnar fyrir héraðsdómstól, sem nefnist lægra dómstig. Niðurstöðum héraðsdómstóla er svo að uppfylltum ákveðnum skilyrðum hægt að skjóta til æðra dómstigs, Hæstaréttar Íslands, en niðurstöður hans eru endanlegar.
Til hliðar við héraðsdómstólana og Hæstarétt starfa einnig tveir sérdómstólar, annars vegar Landsdómur og hinsvegar Félagsdómur. Þessir sérdómstólar starfa á grundvelli sérstakra laga. Landsdómur starfar á grundvelli 14. gr. stjórnarskrárinnar sem felur það í hendur Landsdóms að fjalla um ætluð brot ráðherra í embætti að mati Alþingis. Félagsdómur starfar á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur og er hlutverk hans að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.
Hér að neðan er að finna stutta kynningu á helstu þáttum starfsemi héraðsdómstólanna og samspili þeirra og ofangreindra dómstóla.
Héraðsdómstólarnir eru átta talsins og starfa hver á sínu landsvæði.
Héraðsdómstólarnir nefnast Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness, Héraðsdómur Vesturlands, Héraðsdómur Vestfjarða, Héraðsdómur Norðurlands vestra, Héraðsdómur Norðurlands eystra, Héraðsdómur Austurlands og Héraðsdómur Suðurlands.
Innan hvers héraðsdómstóls starfa meðal annars dómarar, aðstoðarmenn dómara, dómritarar og starfsfólk skrifstofu. Einn af dómurum viðkomandi dómstóls er skipaður dómstjóri. Þar sem þrír eða fleiri dómarar starfa kjósa þeir einn úr sínum röðum sem dómstjóra, ef dómari er einn við dómstól verður hann skipaður þar dómstjóri. Dómstjórar fara með stjórn héraðsdómstóla og bera ábyrgð á störfum þeirra. Dómstólaráð fer svo með yfirstjórn stjórnsýslu héraðsdómstólanna og starfar samkvæmt ákvæðum dómstólalaga.
Meginhlutverk héraðsdómstólanna er að tryggja að allir njóti réttlátrar og sanngjarnar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum dómstóli. Dómararnir skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum, þeim ber að fara einungis eftir lögum og kveða upp rökstudda og skiljanlega dóma innan lögbundinna tímamarka. Málsmeðferð héraðsdómstóla er opinber sem þýðir að almenningur getur almennt verið viðstaddur þinghöld og fylgst með störfum dómstólanna. Samkvæmt meginreglunni um opinbera málsmeðferð fyrir dómi skulu dómar að meginstefnu vera gefnir út. Dómstólaráð hefur tekið þá ákvörðun að útgáfa dóma skuli vera í formi birtingar á vefsíðu héraðsdómstólanna samkvæmt nánari reglum þar um.
Héraðsdómstólum ber einnig að stuðla að trausti og aukinni þekkingu almennings á störfum þeirra og réttarríkinu. Í því skyni leggja héraðsdómstólarnir mikið upp úr hæfu starfsfólki, skilvirkni, hagkvæmni og að miðla upplýsingum til almennings.
Að tilteknum skilyrðum uppfylltum er hægt að skjóta niðurstöðum héraðsdómstólanna til Hæstaréttar.
Héraðsdómstólarnir taka til meðferðar gjaldþrotaskiptabeiðnir, beiðnir um opinber skipti á dánarbúum og beiðnir um opinber fjárslit hjóna eða sambúðarfólks.
Gjaldþrotaskipti.
Að uppfylltum tilteknum skilyrðum getur lánadrottinn krafst þess að bú skuldara (einstaklingur eða lögpersóna) sem ekki hefur staðið í skilum, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá getur skuldari (einstaklingur eða lögpersóna) einnig að uppfylltum tilteknum skilyrðum, krafist þess sjálfur að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotaskiptabeiðni er send þeim héraðsdómstól sem fer með lögsögu í því umdæmi sem skuldarinn er með skráð lögheimili. Ef bú viðkomandi aðila er tekið til gjaldþrotaskipta er um leið skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.
Dánarbússkipti.
Ef ekki er hægt að ljúka skiptum á dánarbúi með svokölluðum einkaskiptum, er unnt að beina skriflegri kröfu um opinber skipti á dánarbúi til héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Ef viðkomandi dánarbú er tekið til opinberra skipta er um leið skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.
Opinber fjárslit hjóna.
Ef ekki næst sátt á milli hjóna eða sambúðarfólks um skiptingu eigna við skilnað/sambúðarslit, getur annað hjóna eða annað eða bæði af sambúðaraðilum, beint kröfu um opinber skipti fjárslita til héraðsdómstóls í því umdæmi sem lögheimili þeirra er skráð. Þegar um sambúðarfólk er að ræða er gerð krafa um að viðkomandi hafi búið saman samfleytt í tvö ár hið skemmsta. Eftir að bú hjóna eða sambúðarfólks hefur verið tekið til opinberra skipta er skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.
Aðfaragerðum, kyrrsetningu og lögbanni verða því gerð nánari skil hér að neðan.
Þvingunarráðstafanir/fullnustugerðir
Aðfarargerðir, kyrrsetning og lögbann eru þvingunarráðstafanir sem stjórnvöld geta beitt í því skyni að knýja fram eða tryggja efndir á skyldum, sem á mönnum hvíla, eða til varnar ólögmætu atferli. Þessar gerðir eru oft kallaðar fullnustugerðir. Unnt er að vísa ágreiningi um fjárnám og nauðungarsölu, kyrrsetningu, lögbann, aðfaragerða og þinglýsinga til héraðsdóms.
Hér að neðan er að finna nánari skýringar á hverri fullnustuaðgerð fyrir sig.
Aðför, aðfaraheimild og aðfarafrestur
Aðför er almennt beitt til að knýja á um fullnustu skyldu, hvort sem skyldan er fólgin í greiðslu peningaskuldar, athöfn eða athafnaleysi.
Sá sem krefst aðfarar er nefndur gerðarbeiðandi en sá sem aðför beinist gegn er nefndur gerðarþoli.
Í tilviki útburðargerða er liggur fyrir aðfararheimild sem kveður á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða láta gerðarbeiðanda af hendi umráð fasteignarinnar eða til að fjarlægja hluti af fasteigninni. Í tilviki innsetningar liggur fyrir aðfararheimild sem kveður á um skyldu gerðarþola um að veita gerðarbeiðanda umráð lausafjár eða annarra hluta en eignarheimild yfir fasteign.
Í grófum dráttum er með aðfararheimild átt við hvernig krafa þarf að vera úr garði gerð til þess að henni verði fullnægt með aðför.
Aðfararfrestur er sá tími sem líða má frá því að aðfararheimildin varð til og þar til aðför má fara fram. Almennt er aðfararfrestur 15 dagar.
Aðför samkvæmt árituðum stefnum er hinsvegar heimilt að framkvæma án tafar og er því ekki um neinn aðfararfrest að ræða í slíkum tilvikum.
Kyrrsetning og lögbann
Kyrrsetning og lögbann eru bráðabirgðaaðgerðir og er gripið til þeirra ef hætta þykir á að athöfn raski með ólögmætum hætti rétti gerðarbeiðanda, meðan leitað er úrlausnar dómstóla.
Þegar um kyrrsetningu er að ræða kyrrsetur sýslumaður eignir gerðarþola að kröfu gerðarbeiðanda í þeim tilgangi að eignin verði til staðar þegar fjárnámsheimildar hefur verið aflað og hægt er að framkvæma fjárnám.
Með lögbanni eru stöðvaðar fyrirhugaðar aðgerðir sem líklegar eru til að raska lögvörðum hagsmunum manns.
Í öllum tilvikum er gerð sú krafa að gerðarbeiðandi leggi fram tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarþoli kann að verða fyrir og að höfðað sé dómsmál til staðfestingar kyrrsetningunni eða lögbanninu innan við viku frá því að gerðin var framkvæmd.
Í einkamálum fer um málsmeðferð eftir lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 en um málsmeðferð sakamála gilda lög um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Reglan um opinbera málsmeðferð gildir þó um flesta málaflokka. Reglan er ein af undirstöðum íslensks réttarfars og er ætlað að tryggja réttaröryggi þannig að borgurum, og þar með talið fjölmiðlum, er gefinn kostur á að fylgjast með störfum dómstóla. Almenningi og fjölmiðlum er því að jafnaði heimilt að mæta í héraðsdóm, kynna sér starfsemi dómstólsins og fylgjast með þinghöldum. Hægt er að nálgast dagskrá hvers héraðsdómstóls fyrir sig undir sérstakri dagskrársíðu viðkomandi dómstóls. Til dæmis er dagskrársíðu Héraðsdóms Reykjavíkur að finna hér.
Reglan er lögfest í 70. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að dómþing skuli háð í heyranda hljóði. Þá er hana einnig að finna í 10. gr. laga um meðferð sakamála, 8. gr. laga um meðferð einkamála og í 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 62/1994.
Reglan um opinbera málsmeðferð er þó ekki fortakslaus. Á henni er að finna einstaka undantekningar, m.a. í lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og barnaverndarlögum nr. 80/2002. Er dómurum meðal annars veitt heimild til að ákveða að halda dómþing fyrir luktum dyrum í þeim tilgangi að tryggja velsæmi, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuni málsaðila.
Þá er í ákvæðum dómstólalaga lögð sú skylda á herðar héraðsdómstólanna, sem og Hæstarétt, að birta dóma sína, með einstaka undantekningum. Er því hægt að nálgast dómsniðurstöður hvers héraðsdóms fyrir sig undir sérstakri dómasíðu viðkomandi dómstóls. Til dæmis er dómasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur að finna hér. Því til viðbótar er einnig hægt að skoða sameiginlegt dómasafn allra héraðsdómstólanna hér, ásamt því að leita að dómum í gegnum ítarleitarvél heimasíðunnar.
Tilgangur dómabirtinga er sá að tryggja borgurunum greiðan aðgang að niðurstöðum dómstólanna og koma þannig á framfæri upplýsingum sem erindi geta átt við almenning og varpa um leið ljósi á starfsemi héraðsdómstólanna. Þá er tilgangur birtingarinnar jafnframt sá að miðla upplýsingum sem komið geta lögfræðingum að notum í störfum þeirra.
Í flipunum hér til hliðar er að finna nánari upplýsingar um málsmeðferð innan mismunandi málaflokka og helstu hugtök sem varða málsmeðferð.
Upphaf sakamála og málsaðilar
Dómsuppkvaðning
Í vissum tilfellum getur komið til þess að mál sé fellt niður, því vísað frá dómi eða lokið með viðurlagaákvörðun dómara.
Ef ekkert þessara tilfella á við skal dómari semja skriflegan dóm og kveða upp eins fljótt og unnt er eða í síðasta lagi fjórum vikum frá dómtöku degi. Hafi dómur ekki verið kveðinn upp í máli sem var munnlega flutt innan fjögurra vikna frá því að það var dómtekið skal það flutt að nýju nema dómari og aðilar telji það óþarft.
Með dómi er ákærði ýmist sýknaður eða sakfelldur, eða sýknaður eða sakfelldur að hluta. Ef ákærði sættir sig ekki við niðurstöðu héraðsdóms getur hann að tilteknum skilyrðum uppfylltum áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar, líkt og nánar er fjallað um í flipanum Áfrýjun, hér til hliðar.
Um málsmeðferð einkamála fer eftir lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 en hér að neðan verður stiklað á stóru yfir helstu þætti málsmeðferðar slíkra mála.
Upphaf einkamála og málsaðilar
Aðilar einkamáls geta verið einstaklingar, félag, stofnun eða íslenska ríkið og telst einkamál höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar. Sá sem höfðar mál er almennt nefndur stefnandi og sá sem stefnt er er almennt nefndur stefndi.
Stefnanda ber að birta hinum stefnda stefnu málsins með tilteknum hætti. Stefnan inniheldur kröfur stefnanda, málsatvik og málsástæður stefnanda sem og áskorun á hendur stefnda um að mæta fyrir dóm við þingfestingu málsins.
Almennt skipar einn dómari skipar dóm í hverju einkamáli nema ef eitthvað af eftirfarandi atvikum eru uppi. Ef deilt er um staðreyndir sem eru bornar fram sem málsástæður og dómari telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr getur hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafa slíka sérkunnáttu. Ef mál er umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði [getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu eða tveir héraðsdómarar með einum sérfróðum meðdómsmanni.
Þingfesting
Þingfesting fer fram í dómssal þar sem stefna máls er formlega lögð fram ásamt gögnum málsins.
Stefnandi verður að mæta við þingfestingu, að öðrum kosti er mál hans ónýtt ef hann hefur ekki boðað lögmæt forföll. Ef stefndi mætir ekki við þingfestingu og lögmæt forföll eru ekki kunn, er málið tekið til dóms og dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem það er samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu sem varða frávísun án kröfu.
Mæti stefndi ekki við þingfestingu, þrátt fyrir löglega stefnubirtingu, má hann búast við að kröfur stefnanda verði teknar til greina.
Afbrigðileg málsmeðferð
Í skuldamálum, t.d. vegna tékka eða víxla verður oft útivist af hálfu stefnda, ýmist vegna þess að hann hefur engar varnir í málinu eða hann getur ekki greitt umrædda kröfu. Af þessum sökum er að finna sérstaka heimild í lögum um meðferð einkamála dómara til handa til þess að ljúka slíkum málum með því að rita á stefnu málsins að kröfur stefnanda séu teknar til greina og séu af þeim sökum aðfarahæfar. Þrjú skilyrði þurfa þó að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi þarf að hafa orðið útivist af hálfu stefnda, í öðru lagi þurfa kröfur stefnanda að vera með þeim hætti að unnt sé að fullnægja þeim með aðför og í þriðja lagi þarf dómari að telja að málatilbúnaði stefnanda ekki áfátt og því megi taka kröfu hans til greina.
Haldi stefndi uppi vörnum
Kjósi stefndi að halda uppi vörnum fær hann frest til að skila greinargerð og öðrum gögnum af sinni hálfu en eftir það fer málið til meðferðar hjá dómara sem munnlega flutt einkamál.
Þegar stefndi hefur lagt fram greinargerð athugar dómari hvort gallar séu á máli sem geta varðað frávísun þess án kröfu. Telji dómari slíka galla fyrir hendi gefur hann aðilum kost á að tjá sig um það munnlega. Ef mál skal sæta frávísun án kröfu kveður dómari upp úrskurð um frávísun þess þegar að því loknu.
Ef stefndi krefst frávísunar máls í greinagerð skal málið flutt munnlega um þá kröfu áður en fjallað er frekar um efni þess og leyst úr kröfunni í úrskurði.
Þegar stefndi hefur lagt fram greinargerð sína skal mál jafnan tekið fyrir einu sinni til þess að leita sátta og gefa aðilum kost á að koma að sýnilegum sönnunargögnum sem ekki hefur áður verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram. Í því þinghaldi skal eftir atvikum leitað svara aðila við því í hverju skyni þeir hyggjast sjálfir gefa skýrslur og leiða einstök vitni til þess að staðreyna hvort og að hverju marki skýrslugjafar sé þörf. Dómara er rétt að inna aðila eftir því hve langan tíma þeir þurfi fyrir málflutningsræður við aðalmeðferð og ákveður dómari síðan lengd hennar í ljósi þess.
Dómari getur orðið við ósk aðila um að fresta máli frekar ef hann telur það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna sem nægilegur frestur hefur ekki áður verið til, en báðum aðilum ber þá jöfnum höndum að nota sama frest til gagnaöflunar. Að öðrum kosti synjar dómari að jafnaði um frest, þótt aðilar séu á einu máli um að æskja hans.
Ef ekki verður sátt í málinu, því er vísað frá eða því lýkur með öðrum hætti fer fram aðalmeðferð.
Að jafnaði ákveður dómari þó ekki hvenær þing verði háð til aðalmeðferðar máls fyrr en aðilar hafa lýst lokið öflun sýnilegra sönnunargagna. Eftir það er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn.
Aðalmeðferð
Aðalmeðferð hefst á því að skýrslur eru teknar af aðilum og vitnum. Aðila er jafnan heimilt að gefa skýrslu um málsatvik fyrir dómi í máli sínu nema dómari telji sýnilegt að hún sé þarflaus eða tilgangslaus. Dómari getur einnig kvatt aðila að sjálfsdáðum fyrir dóm til að gefa skýrslu ef hann telur þess þörf til skýringar á máli.
Að loknum skýrslutökum fer fram munnlegur málflutningur. Fer hann fram með sama hætti og í sakamálum, þ.e. stefnandi flytur mál sitt og að því búnu stefndi. Stefnandi fær svo kost á því að halda seinni ræðu sem og stefndi að því loknu ef tilefni er til. Við svo búið er málið dómtekið.
Dómsuppkvaðning
Ef ekki verður sátt í málinu, því vísað frá, það fellt niður eða því lýkur með öðrum hætti fyrir dómsuppsögu máls, skal dómari semja skriflegan dóm og kveða upp eins fljótt og unnt er eða í síðasta lagi fjórum vikum frá dómtöku degi. Hafi dómur ekki verið kveðinn upp í máli sem var munnlega flutt innan fjögurra vikna frá því að það var dómtekið skal það flutt að nýju nema dómari og aðilar telji það óþarft.
Með dómi er almennt stefnandi ýmist sýknaður af kröfum stefnanda, eða fallist á kröfur stefnanda að hluta eða öllu leyti. Þá getur einnig til þess komið að stefndi hafi haldið uppi svokölluðum gagnkröfum eða skuldajöfnuði í máli og er þá jafnframt tekin afstaða til þeirra krafna stefnda á hendur stefnanda. ákærði ýmist sýknaður eða sakfelldur, eða sýknaður eða sakfelldur að hluta. Ef ýmist stefnandi eða stefndi sættir sig ekki við niðurstöðu héraðsdóms getur hann að tilteknum skilyrðum uppfylltum áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar, líkt og nánar er fjallað um í flipanum Áfrýjun, hér til hliðar.
Hvað er gjafsókn?
Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi (sá sem sækir um gjafsókn) hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Þóknun lögmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls skal ákveðin í dómi eða úrskurði.
Ríkið skuldbindur sig ekki til að greiða þá þóknun sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér heldur aðeins þá fjárhæð sem dómari ákveður handa honum. Sú fjárhæð er ákveðin í dómi málsins.
Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli. Þá nær gjafsókn jafnframt til kostnaðar af fullnustu réttinda gjafsóknarhafa með aðför og nauðungarsölu, nema annað sé tekið fram í gjafsóknarleyfinu. Loks breytir gjafsókn engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað.
Hverjir geta sótt um gjafsókn?
Gjafsókn er aðeins veitt einstaklingum en ekki lögaðilum, s.s. fyrirtækjum eða félögum. Einstaklingar sem geta átt aðild að dómsmáli hér á landi, án tillits til ríkisborgararéttar, geta átt rétt til gjafsóknar. Gjafsókn verður þó ekki veitt eftir að dómur hefur verði kveðinn upp.
Hver eru skilyrði gjafsóknar og hvernig sæki ég um?
Sótt er um gjafsókn til sérstakrar gjafsóknarnefndar sem starfar undir innanríkisráðuneytinu. Gjafsóknarnefnd verður að meta það svo að brýnt þyki að höfða dómsmál og umsækjandi þarf í grófum dráttum ýmist að sýna fram á það að hann hafi ekki efni á því að standa undir rekstri dómsmáls, til sóknar eða varnar eða að niðurstaða málsins hafi verulega þýðingu með tilliti til almanna hagsmuna.
Ef fallist hefur verið á að veita gjafsóknarhafa gjafsókn ber gjafsóknarhafa eða lögmanni hans ber að snúa sér til sýslumannsins á Vesturlandi, í Stykkishólmi, vegna uppgjörs tildæmdrar málflutningsþóknunar og útlagðs kostnaðar.
Nánari upplýsingar um gjafsókn, skilyrði hennar og umsóknarferli er að finna á vef innanríkisráðuneytisins.