Leiðbeiningar

 

Leiðbeiningar fyrir vitni

Reglur um vitni fyrir dómi er að finna í VIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og XVIII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í öllum aðalatriðum eru reglur um vitni fyrir dómi hina sömu burtséð frá því hverskonar mál er rekið fyrir dómi.

Það er meginregla að hverjum manni er skylt, að forfallalausu, að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik. Frá þessu eru þó undantekningar.

Þeir sem eru náskyldir eða tengdir sakborningi í sakamáli eða aðila máls í einkamáli geta skorast undan því að gefa skýrslu sem vitni að öllu leyti eða einhverju en það eru:

a) Maki og fyrrverandi maki.

b) Skyldmenni í beinan legg systkin hans og þeir sem tengjast honum þannig vegna ættleiðingar

c) Stjúpforeldri og stjúpbarn

d) Tengdaforeldri og tengdabarn

e) Dómari getur leyst aðra sem eru eða hafa verið nákomnir ákærða eða aðila einkamáls undan vitnaskyldu ef honum virðist samband þeirra mjög náið, svo sem ef um er að ræða fósturforeldri eða fósturbarn, sambúðarfólk, unnusta eða unnustu.

f) Í einkamáli getur dómari undanþegið vitni frá því að upplýsa um leyndarmál varðandi viðskipti þess, uppgötvanir eða önnur slík verk ef hann telur hagsmuni vitnis af leyndinni verulega ríkari en hagsmuni aðila af framburði vitnisins.

Yngri manni en 15 ára er ekki skylt að bera vitni í einkamáli nema samkvæmt ákvörðun dómara. Sama á við um geðveika menn og þroskahefta.

Þegar vitni kemur fyrir dóm lætur dómari það fyrst gera grein fyrir sér, með nafni sínu, kennitölu og heimilisfangi. Þá kannar hann eftir atvikum hvort vitni sé rétt og skylt að svara spurningum sem til þess er beint. Síðan brýnir dómari fyrir vitninu skyldu þess til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta. Þá greinir dómari vitni frá því að það er refsivert að skýra rangt eða gáleysislega frá. Refsing fyrir rangan framburð kann að varða allt að fjögurra ára fangelsi.

Til þess er ætlast að vitni svari skilmerkilega spurningum sem til þess er beint. Vitni er þó ekki skylt að svara öllum spurningum t.d. er vitni ekki skylt að svara spurningu ef ætla má að í svari þess geti falist játning eða vísbending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Sama á við ef ætla má að svar hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern sem tengdur er vitni með þeim hætti sem rakið er hér að framan. Þá er vitni án leyfis hlutaðeigandi ráðherra óheimilt að svara spurningum um leynilegar ráðagerðir, ályktanir eða samninga handhafa ríkisvaldsins um málefni sem varða öryggi eða heill ríkisins eða skipta mjög miklu fyrir viðskipti eða fjárhag þjóðarinnar.

Vitni er ennfremur óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um:

a) hver sér höfundur eða heimildarmaður að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem birst hefur án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni,

b) einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögmaður, læknir, prestur, forstöðumaður trúfélags eða sálfræðingur ellegar í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir,

c) atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt,

d) leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi.

Ef dómari telur hagsmuni aðila máls verulega meiri af því að vitni upplýsi um atriði sem það ella þyrfti ekki að gera vegna þess sem að framan er rakið, getur hann þá eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þó leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli svarið þá ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem ekki á aðild að málinu. Í sakamálum er þessu aðeins á annan veg farið en þar getur dómari ákveðið að vitni svari spurningu ef ríkari hagsmunir eru af því að spurningu verði svarað en trúnaði haldið. Þetta á þó ekki við um það sem ákærði hefur trúað verjanda sínum, presti eða forstöðumanni trúfélags fyrir um málsatvik.

Eftir að vitni hefur gefið skýrslu sína fyrir dómi er heimilt að láta það staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti en það er þó afar sjaldgæft.

Vitni á rétt á að fá greiddan útlagðan kostnað við að koma fyrir dóm og þóknun fyrir launatap enda varði sú þóknun vitnið nokkru miðað við efnahag þess og aðstæður. Sá aðili sem boðar vitni fyrir dóm í einkamáli skal greiða þennan kostnað en í sakamálum greiðir sækjandi kostnaðinn.

Ef vitni sinnir ekki skyldu sinni og mætir til dómþings á boðuðum tíma getur dómari lagt fyrir lögreglu að sækja vitnið. Gildir það jafnt í einka- og sakamálum. Vitni sem ekki fullnægir vitnaskyldu sinni, t.d. með því að svara ekki spurningum, má gera að greiða sekt til ríkissjóðs.

Febrúar 2014

 

Leiðin áfram

Fræðslusíða á vegum Vitundarvakningar sem hefur það hlutverk að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund. Þar er meðal annars að finna fræðslumyndbönd og bæklinga af ýmsu tagi.