Viðhorfskannanir


Dómstólaráð og héraðsdómstólarnir réðust í umfangsmikla stefnumótunarvinnu með aðkomu fulltrúa allra starfshópa héraðsdómstólanna auk fulltrúa frá Lögmannafélagi Íslands og ákærendafélaginu. Stefnunni fylgdi aðgerðaráætlun þar sem aðgerðir til þess að ná settum markmiðum voru skilgreindar og mælikvarðar settir þannig að mögulegt væri að mæla árangurinn. Þjónustukönnunin var einn liður í því að meta stöðu ýmissa mikilvægra þjónustuþátta til samræmis við stefnu og aðgerðaráætlun dómstólaráðs. Könnunin var lögð fyrir lögmenn og ákærendur í janúar 2017 enda eru þeir í reglulegum tengslum við héraðsdómstólana. Fjöldi svarenda í þjónustukönnuninni var alls 542 og þátttökuhlufallið 49,7%. 


Hlutfall þeirra sem bera fullkomið, mjög mikið eða frekar mikið traust til dómstólanna nemur 85% og hlutfall þeirra sem telja að dómarar og aðrir starfsmenn héraðsdómstólanna vinni störf sín af heilindum, virðingu og gæta fyllsta trúnaðar nemur 91%. Þá telja 85% svarenda að málsmeðferð við héraðsdómstólana sé  réttlát og opinber og 86% svarenda að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum. Þá telur 74% svarenda að dómar og úrskurðir séu rökstuddir með fullnægjandi hætti. Þegar spurt er um málsmeðferðartíma héraðsdómstólanna kemur fram að 50% svarenda telur hann vera ívið of langan og 16% allt of langan en 33% svarenda telja málsmeðferðartímann vera hæfilegan.


Í opnum svörum voru helst gerðar athugasemdir við tæknilegan aðbúnað í dómsölum, öryggismál og afgreiðslutíma erinda. Þá voru og gerðar athugasemdir við dómaleitarvél á vefsíðu dómstólanna og að dómar væru   ávallt birtir. Mikilvægar ábendingar er að finna í niðurstöðum könnunarinnar sem dómstólaráð mun taka til skoðunar með fulltrúum ákærendafélagsins og Lögmannafélags Íslands. 


Niðurstöður þjónustukönnunar dómstólaráðs og héraðsdómstólanna.


Gallup kannar reglubundið traust til ýmissa opinberra stofnana þar á meðal til dómskerfisins. Að þessu sinni var jafnframt spurt sérstaklega um þekkingu svarenda á dómskerfinu og sérstklega um traust til Hæstaréttar og héraðsdómstólanna.

Könnunin  fór fram febrúar 2017 og var úrtakið 4431 manns,  fjöldi svarenda var 2490 eða 56,2%. 

Almennt eykst traust til stofnana milli ára og fór hlutfall þeirra sem bera mikið traust til dómskerfisins úr 32% á árinu 2016 í 43% á árinu 2017. Þegar sérstaklega er spurt um traust til héraðsdómstólanna þá er hlutfall þeirra sem bera mikið traust til þeirra  49% og þegar spurt er um traust til Hæstaréttar er hlutfall þeirra sem bera mikið traust til Hæstaréttar mældist 52%.  Þá var traust þeirra sem þekkja vel til starfsemi dómskerfisins  meira en þeirra sem þekkja lítið til starfseminnar. 

Niðurstöður könnunarinnar um traust almennings til dómskerfisins.